Kennari hafði hengt greinar upp í stofunni, sumar láréttar, aðrar lóðréttar og þær þriðju vafðar við hillur eða veggi. Á gólfinu voru einnig stöplar og borð. Nú var komið að því að finna húsunum stað í umhverfi. Við litum yfir svæðið og skoðuðum landslagið, mátuðum húsin við greinarnar og veltum fyrir okkur möguleikum. Sumir vildu eiga heima uppi í lofti meðan aðrir vildu vera við vatn eða ofan í jörðinni. Við veltum fyrir okkur hvernig heimurinn er lagskiptur og hvernig sama grein sem hangir úr loftinu getur bæði verið bústaður arnarins um leið og hún getur verið rót sem greinist í ótal rætur neðanjarðar og gagnast þá moldvörpunni nú eða hundinum sem grefur.

Þegar börnin stigu frá sínu borði og fundu húsunum stað í landslagi afmáðust eignarréttarlínur og raunveruleikamörk skoluðust til.

Ánamaðkurinn vildi t.a.m. búa í nálægð við hvalinn og hundurinn hjá uglunni. Steypireyðurin varð vinur marglyttunnar og apinn hvítháfsins. Samt voru þarna hættur: Logandi kyndlar, blásýrupollar og gaddavírar eins og í lífinu sjálfu. Brýr risu, tröppur, slóðar og brautir í óeiginlegri og eiginlegri merkingu.

Fuglar þurfa ekki brýr en brýr undirstrika að fuglinn komist nú örugglega til vinar síns bleikjunnar þannig að allir slóðar verða í raun samskiptaslóðar.

Við teiknuðum með límböndum á gólfið og afmörkuðum svæði, bjuggum til vegakerfi og notuðum einnig eyrnapinna, tréprik og pappírsrenninga til smíðanna. Af og til settumst við niður til að horfa á heildina og skoða þróunina. Þarna unnu nemendur saman og hjálpuðu hver öðrum. Í lokin bættum við lýsinguna, notuðum kastara til að undirstrika sérkenni og eftir hádegismat var opnuð sýning fyrir fjölskyldu og vini. Þar hélt kennari tölu þar sem hann kynnti verkefnið og kallaði síðan fram hvert barn sem kynnti hús sitt.